Niðurstaða: Mjög skemmtilegir tónleikar að langflestu leyti.
Söngsveitin Fílharmónía söng jólatónlist. Magnús Ragnarsson stjórnaði. Einsöngur: Hallveig Rúnarsdóttir. Hörpuleikur: Elísabet Waage.
Langholtskirkja
sunnudaginn 27. nóvember
Þegar ég var tveggja eða þriggja ára fóru foreldrar mínir með mig til Kaupmannahafnar rétt fyrir jól. Einn daginn fór ég með pabba niður í bæ. Þá sá ég mann í hvítum kattarbúningi. Pabbi sagði mér að þetta væri Jólakötturinn. Ég varð skelfingu lostinn. Og ekki að undra. Jólakötturinn var óvættur, gæludýr Grýlu og Leppalúða og hann át börn sem fengu ekki föt í jólagjöf. Var hann að fara að éta mig?
Jólakettinum brá fyrir á tónleikum Söngsveitarinnar Fílharmóníu í Langholtskirkju á sunnudagskvöldið. Þetta voru aðventutónleikar og á efnisskránni voru lög sem hæfðu tilefninu. Eitt þeirra var Jólakötturinn eftir Ingibjörgu Þorbergs við ljóð eftir Jóhannes úr Kötlum. Í sjálfu sér er lagið dálítið klunnalegt því það er svo endurtekningarasamt, en útsetningin hér var skemmtileg. Hún var eftir Skarphéðinn Þór Hjartarson og einkenndist af hugvitsamlegum tilþrifum og sívaxandi krafti. Kórinn stappaði og einhverjir mjálmuðu á viðeigandi stöðum. Útkoman hitti beint í mark.
Misskemmtilegur fyrri hluti
Eins og gengur á svona tónleikum var fyrri hluti dagskrárinnar helgaður dálítið þungmeltri tónlist, en léttmetið réð ríkjum í seinni helmingnum. Eitt af þyngri lögunum var hið frumflutta Við sem komum víða að eftir Tryggva Baldvinsson. Það var afskaplega falleg tónlist, mjög ljóðræn og flæðandi. Mariam Matrem Virginem, um Maríu mey eftir Michael McGlynn við miðaldatexta var líka hástemmt og fullt af andakt. Ég höfði lýt eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson var sömuleiðis ágætt, bæði grípandi og nett.
Sísta lagið á efnisskránni var án efa Betlehemstjarnan eftir Áskel Jónsson. Það var óttaleg armæða, svo drungalegt og leiðinlegt að furðu sætti að það skyldi rata á tónleikana, sem annars voru svo upplífgandi.
En svo byrjaði stuðið
Nokkur frábær lög voru flutt á seinni helmingi dagskrárinnar, á borð við hið sívinsæla þjóðlag frá Katalóníu, Fúm, fúm, fúm, Jólasveinninn minn, Stráið salinn, og svo hin dásamlega Ave María eftir Sigvalda Kaldalóns. Við áheyrendurnir fengum meira að segja að syngja með, en það var í laginu Nú ljóma aftur ljósin skært. Einhverjir gárungar hafa breytt titilinum í Nú ljóma afturljósin skært, en hér virtist textinn ekki standa í neinum. Söngurinn var fullur af tilfinningum og enginn flissaði.
Hallveig Rúnarsdóttir sópran söng einsöng í nokkrum lögum og gerði það af mikilli fagmennsku. Söngurinn var kröftugur, magnþrunginn og upphafinn. Hörpuleikur Elísabetar Waage var líka ómþýður og lét vel í eyrum.
Söngsveitin Fílharmónía söng prýðilega. Söngurinn var tær og innilegur, samtaka og styrkleikajafnvægi mismunandi raddhópa eins og best verður á kosið. Magnús Ragnarsson stjórnaði og gerði það af kostgæfni. Hann er með músíkalskari mönnum, með næma tilfinningu fyrir skáldskapnum í tónlistinni og hefur svo mikið að segja. Hann er einfaldlega frábær kórstjóri.