Mozart í yfirborðslegum kappakstri Sinfóníunnar

Niðurstaða: Frábær einsöngur og einleikur en annað var verra.

Verk eftir Walpurgis, Vivaldi, Händel og Mozart. Einleikarar: Vera Panitch og Steiney Sigurðardóttir. Einsöngur: Tim Mead. Stjórnandi: Jonathan Cohen. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék.

Eldborg í Hörpu

fimmtudagur 1. desember

Það eru góða fréttir og slæmar af aðventutónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Góðu fréttirnar eru að allt var á sínum stað fyrir hlé. Slæmu fréttirnar eru að þar á eftir var annað og verra uppi á teningnum.

Byrjum á slæmu fréttunum. Jonathan Cohen stjórnaði sinfóníu í g-moll nr. 40 eftir Mozart og túlkun hans var afskaplega yfirborðsleg. Fyrsti kaflinn á vissulega að vera hraður, en það á samt að vera ákveðin draumkennd stemning í tónlistinni. Þar er tign og fegurð sem tilheyrir æðri tilvist – ef svo má að orði komast. Þetta skilaði sér engan veginn á tónleikunum. Andrúmsloftið var stressað. Maður fékk á tilfinninguna að Cohen væri fyrst og fremst að reyna að koma sem flestum nótum að á sem skemmstum tíma. Hraðinn virkaði vélrænn og tónlistin, eins stórkostleg og hún er, var hvorki fugl né fiskur.

Annar kaflinn var andlaus og skorti hinn yndislega frið sem einkennir hæga kafla Mozarts í ótal verkum. Þriðji kaflinn, sem ber yfirskriftina Allegretto og er menúett, var sömuleiðis ekki góður. Menúett er dans og á að vera þokkafullur og ekki of hraður. Hér var hraðinn svo ofboðslegur að það var eins og að vera vitni að kappakstri. Fyrir vikið var tónlistin aðeins skrumskæling af sjálfri sér, og svipaða sögu er að segja um síðasta kaflann.

Glæstur einsöngur

Nei, þá var miklu meira varið í fyrri hluta tónleikanna. Þar fékk hljómsveitarstjórinn ekki að baða út öllum öngum og þurfti að fylgja einleikurum eða einsöngvara. Tim Mead kontratenór söng einsöng í kantötu RV 684 eftir Vivaldi, sem og í tveimur aríum eftir Händel. Hann gerði það með glæsibrag. Söngur hans var einkar líflegur og kraftmikill, röddin tær og safarík.

Fyrir þá sem ekki vita er kontratenór karlmaður sem syngur í falsettu eins og kona. Ástæðuna fyrir því má rekja til Páls postula. Í fyrra Korintubréfi segir hann að konur skuli „þegja á safnaðarsamkomum því að þeim er ekki leyft að tala heldur skulu þær hlýða…“ Þetta hafði þær afleiðingar að konur máttu ekki syngja í trúarlegum verkum í denn, og karlmenn reyndu að herma eftir rödd þeirra.

Prýðilegur einleikur

Frammistaða Veru Panitch fiðluleikara og Steineyjar Sigurðardóttur sellóleikara var einnig mögnuð. Þær voru einleikararnir í konsert í B-dúr RV 547 eftir Vivaldi og hristu alls konar tónahlaup fram úr erminni. Leikur þeirra var áreynslulaus og flæðandi, túlkunin full af snerpu, ávallt lifandi.

Loks ber að nefna forleik að óperunni Talestri, regina delle amazzoni eftir Maríu Antóníu Walpurgis. Hún var uppi á átjándi öld og var af göfugum ættum og fékk því góða menntun. Konur áttu almennt ekki mikilli velgengni að fagna sem tónskáld í gamla daga. Sumar þurftu meira að segja að þykjast vera karlmenn til að vera teknar alvarlega. Walpurgis var ein af fáum undantekningum, og tónlist hennar lét vel í eyru á tónleikunum, var bæði blátt áfram og ljúf. Synd hve Mozart var slæmur.  

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s