Fleyta kerlingar yfir gáróttan geim

Niðurstaða: Frábær tónlist, magnaður flutningur.

Geisladiskur

Hugi Guðmundsson: Windbells.

Kammersveit Reykjavíkur, ásamt Áshildi Haraldsdóttur og Hildigunni Einarsdóttur.

Sono Luminus

Einu sinni las ég fantasíubók sem hefst í helvíti. Þar kveljast sálir fordæmdra um alla eilífð, en illu andarnir passa upp á logarnir brenni sem heitast. Á meðan er spiluð tónlist. Þetta er eingöngu tónlist eftir misheppnuð tónskáld, verk sem voru í mesta lagi flutt einu sinni á jörðinni. Sagan dæmdi þau úr leik, en í helvíti eru þau spiluð endalaust, hinum fordæmdu til enn meiri skapraunar.

Tónsmíðarnar eftir Huga Guðmundsson enda ekki þarna, svo mikið er víst. Á geisladiskinum Windbells er að finna sautján ár af tónlist hans og ber hann ríkum hæfileikum fagurt vitni. Verkin eru aðgengilegri en oft er uppi á teningnum þegar nútímatónlist er annars vegar. Hefðbundnar tóntegundir koma fyrir og laglínurnar eru grípandi. Hljómarnir eru oftar en ekki töfrandi og áferðin sem skapast af samhljómandi röddum ólíkra hljóðfæra er fíngerð og heillandi. Hvergi er neitt sem er ódýrt eða klisjukennt. Maður finnur að Huga liggur ávallt mikið á hjarta með skáldskap sínum.

Nákvæmt samspil

Entropy er líklega klassískasta verkið á geisladiskinum. Það er mjög fágað og er í tveimur köflum. Hinn fyrri er fremur fjörlegur, en sá seinni miklu rólegri. Tónlistin varpar upp mynd af tilvist sem byrjar í föstu formi, full af lífi, en missir smám saman lífskraftinn. Kammersveit Reykjavíkur flytur verkin og gerir það prýðilega. Tónarnir eru meitlaðir, tónhendingarnar fagulega mótaðar og samspilið er agað og nákvæmt.

Næsta tónsmíð á geisladiskinum er Lux, eða Ljós, og er einleikari þar Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari. Stemningin er dularfull, byrjunin samanstendur af leitandi, bergmálandi flaututónum sem líkt og fleyta kerlingar yfir gáróttan geim. Djúpur, síendurtekinn hljómur myndar dáleiðandi andrúmsloft. Útkoman er einstaklega áhrifamikil, eins og djúp hugleiðsla.

Tilraunakennt og leitandi

Elsta verkið hér er Equilibrium IV: Windbells, sem er í fjórum köflum. Það er ekki eins  hnitmiðað og annað á geisladiskinum; kannski var Hugi þá ekki fyllilega búinn að finna sína eigin rödd. Tónlistin er fremur tilraunakennd, rétt eins og verið sé að prófa hljóðfærin til að finna út hvaða möguleika þau bjóða upp á.

Brot, sem er næst, er hins vegar fastmótuð tónlist sem ferðast ýmist fram eða aftur í tíma. Kaflarnir eru þrír, en þeir eru fleygaður með tveimur millispilum. Þar eru kaflarnir á undan spilaðir aftur á bak, með mjög annarsheimlegum effektum. Raftónlist blandaðst þannig á einkar áhugaverðan hátt við formfastari kammertónlist og er heildarútkoman afar lokkandi. Síðasti kaflinn, Danse Macabre, vísar til fortíðarinnar. Fiðlusólóið í kaflanum hljómar eins og öfuga útgáfan af sólóinu í samnefndu verki eftir Saint-Saens, en óneitanlega talsvert vélrænni. Útkoman er mjög skemmtileg.

Síðasta tónsmíðin er Söngvar úr Hávamálum, þar sem Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran er í aðalhlutverki. Söngurinn er hástemmdur og laglínurnar fallegar. Undirleikshljómarnir eru forkunnarfagrir, og maður fær ekki nóg af því að hlusta á fyrsta kaflann þar sem sungið er um einmannaleika og hve félagsskapur er mikilvægur. Maður er manns gaman – og tónlist er líka manns gaman, sérstaklega hér.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s