Geisladiskur
Borgar Magnason: Come Closer.
Niðurstaða: Mjög falleg tónlist.
Borgar Magnason er kontrabassaleikari og hljóðfærið hans er í aðalhlutverki á nýjum geisladiski sem kom á streymisveitur fyrir skemmstu. Útgáfan inniheldur sex verk. Þrátt fyrir að Borgar hafi hlotið klassíska menntun er tónlist hans ekki „akademísk“ – ef svo má að orði komast. Framvindan, sem er einkennismerki klassískrar fagurtónlistar, er víðsfjarri. Með framvindu er átt við stef eða annað tónefni sem fer í gegnum umbreytingar, þróast í tiltekna átt, rétt eins og atburðarás í skáldsögu eða kvikmynd. Hér er hins vegar kyrrstaða, stemning, jafnvel hugleiðsla.
Grípandi bassahljómur
Fyrsta verkið, Time to Move On, er mjög grípandi. Þykkur bassahljómur liggur til grundvallar allan tímann, og yfir honum ómar einfalt þriggja nótna stef sem er endurtekið í sífellu, með eilitlum breytingum og tilbrigðum. Bassahljómurinn er þó kvikur og skapar hrífandi litasinfóníu. Borgar er frábær bassaleikari og leikur hans er markviss og áleitinn. Ég veit ekki hve margar hljóðrásir eru í laginu, en þær eru fleiri en ein og fleiri en tvær. Heildarhljómurinn er þéttur og lætur vel í eyru.
I Must Tell you, næsta lag, er allt öðru vísi. Einfaldur taktur er þar undirastaðan, og við hann fer Borgar með ljóð sem byggir að miklu leyti á endurtekningum. Hrynjandin er skemmtileg og ljóðaupplesturinn, einskonar söngles, er forvitnilegur. Einnig hér er sterk heildarmynd.
Dulúðin ræður ríkjum
Í þriðja laginu, Going Gone, ræður dulúðin ríkjum. Aðeins einmannalegt stef ræður ríkum, við brotna – og brothættan – undirleik. Tóntegundin er bara ein, h-moll. Og samt leiðist manni ekki. Breiður kontrabassaleikurinn er svo innilegur og tilfinningaþrunginn að maður getur ekki annað en hrifist með, farið með tónlistinni í ferðalag sem liggur djúpt inn á við.
In Your Eyes, fjórða lagið, er tilraunakenndara. Titrandi sínustónn fléttast saman við plokkaða kontrabassastrengja, og við þessa hljóðmynd syngur Borgar. Kannski er það hið sísta á geisladiskinum, því söngurinn er ekki sérlega hnitmiðaður og kemur ekki vel út.
Röddin er miklu betri út í næsta lagi, Object of Desire, en þar er aðeins talað tiltölulega stutt. Fáeinar setningar gefa tóninn fyrir langa hugleiðslu djúpra bassatóna, en fyrir ofan þá svífa viðkvæmir flaututónar. Það er afar fallegt.
Ekki hægt að þegja yfir
Í lokalaginu, Come Closer, myndar hljóðfæraleikurinn eins konar vindhljóð, sem liggur til grundvallar leitandi tónahendingum. Þetta væri frábær kvikmyndatónlist. Stemningin er mjög myndræn og tónavefurinn litríkur, þrátt fyrir hljómalega kyrrastöðu. Merking er í hverjum tóni, tónarnir segja hver sína sögu. En hver er hún?
Victor Hugo sagði eitt sinn að tónlist væri um eitthvað sem ekki er hægt að koma orðum að, en er heldur ekki hægt að þegja yfir. Maður heyrir að Borgari liggur margt á hjarta, og skáldskapurinn hans kemst fyllilega til skila í mögnuðum flutningi.